Að elska náungann í nágrenni uppruna biblíunnar.

Mér verður um og ó þegar ég er að þvælast á milli rása og dett inn á Omega trúarstöðina og heyri í einhverjum Israelaðdáendum prísa hina útvöldu þjóð og að Palestínumenn séu útsendarar satans og réttdræpir hvar sem til þeirra næst.

Svo sá ég á blogginu svona gyðingaumræðu sem ég var ekki viss hvernig ég ætti að taka. Málið er að bróðir minn er giftur palenstískri konu og lifir og hrærist í menningu Palestínumanna og ég hef fengið að kynnast þessu fólki nokkuð vel og hef lært að það er til sóma og eftirbreytni.

Þessi mágkona mín sagði mér sögu sína í stórum dráttum um af hverju hún var búsett í ameríku sem er eftirfarandi:

Þegar hún var sjö ára man hún eftir að það var mikil spenna í hverfinu sem hún bjó í Palestínu, þar sem Israelar voru að yfirtaka hverfið. Hún vissi að þegar Israelar komu þá þurftu Palestínumenn að færa sig, ekki vissi hún þá hvað þetta allt þýddi. En hún vissi að þegar israelskir hermenn komu og stóðu undir húsvegg einhvers heimilis þá var stutt í að Palestínufólkið flutti út og Israelar fluttu inn. Svo kom að heimili hennar, hún sagði að mjög ungir hermenn hefði staðið undir vegg hjá þeim með alvæpni. Hún sagði að krakkarnir hefðu leikið sér af því að fara upp á þak sem var flatt, með steinvölur og látið detta ofan á hjálmanna á hermönnunum, þeir tóku leiknum vel og verið brosandi og glaðir. 

En svo breyttist allt. Það komu ung israelsk hjón eða par að skoða húsið. Þegar þau komu þá var öllum einfaldlega ýtt til hliða af hermönnunum ungu þegar íbúarnir sýndu einhvern mótþróa við innrásina á heimilið og unga isrelska fólkið skoðaði sig um og kinnkaði ánægt kolli og fór sína leið. Allir vissu hvað þetta þýddi. Þau voru að missa heimilið sitt. Fundur var haldinn og ákveðið var að elsti fjölskyldufaðirinn færi á fund í „Sheriff’s office“, en það er eins og hann ætlaði að hitta sýslumanninn hérna heima. Tilgangurinn var að ræða mörg hundruð ára búsetu fjölskyldunar í þessu ættarsetri og friðsama hegðun. Hún sagði að elsti bróðir pabba hennar hefði klætt sig í sín bestu föt og verið tilbúinn eldsnemma morguns, hann sat á stól í miðri stofunni og beið eftir að skrifstofan opnaði. Þegar skrifstofan opnaði fór hann á fund sýslumanns. Fólk sá hann fara inn í húsið en hann kom ekki út aftur. Við eftirgrennslan kannaðist enginn við að hann hafi komið inn í húsið. 

 Aftur var haldinn fundur og ákveðið að næstelsti bróðurinn færi á fund sýslumanns til að athuga hvað væri í gangi. Hún sá hann sitja í sínum bestu fötum í sama stól og bróðir sinn áður, tilbúinn að hitta yfirvaldið og athuga hvað væri að gerast. Sama sagan endurtók sig. Þá ákvað pabbi hennar, sem var þriðji í röðinni, að pakka saman og flytja í burtu með fjölskylduna sína með hraði, til Ameriku, sem þau gerðu flest en ekki öll. Dapurleg saga er um örlög þeirra sem urðu eftir sem ég veit ekki hvort nokkurn tíma verður sögð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband